Heimsmeistaramót í Junior II latín WDSF

Núna á laugardaginn 4.júni verður haldið heimsmeistaramót Junior II í Bremen Þýskalandi. Ísland sendir 4 fulltrúa á mótið. Það eru þau Alexander Karl Þórhallsson og Katrín Rut Atladóttir úr Dansdeild HK og Viðar Snær Hilmarsson og Hrafnhildur Eva Davíðsdóttir einnig úr Dansdeild HK.

Það verður beint streymi á keppninni og hefja þau keppni kl. 10.30 á staðartíma sem er kl. 8.30 á íslenskum tíma. Hér er svo linkurinn á streymið. https://dsf.ggcbremen.de/en/live-stream/ .

Við sendum þeim spurningarlista til kynningar um þau og hér má sjá þeirra svör:

Spurningar vegna HM

Svarað af Viðari og Hrafnhildi:

Nú eruð þið að fara á stórmót á vegum Dansíþróttasambands Íslands, hvernig eruð þið búin að vera æfa upp á síðkastið?

Við höfum æft mjög vel að undanförnu með sérstaka áherslu á latín dansa vegna mótsins um helgina. Til viðbótar við hefðbundna hóptíma hjá kennurum í HK erum við reglulega í einkatímum hjá Adam og Karen og einnig verið í tímum hjá Barböru McCall og Alison Fulham á síðustu mánuðum.

Hvað finnst ykkur mikilvægt að gera á keppnisdegi?

Passa upp á mataræði, hita vel upp, vera með fullan fókus og gera okkar besta.

Hvenær byrjuðuð þið að dansa?

Hrafnhildur byrjaði 3 ára og Viðar 4 ára. Við höfum dansað saman í um það bil þrjú og hálft ár.

Hver eru ykkar fyrirmyndir í dansinum?

Sóley (systir Viðars), kennararnir okkar og fjölmörg eldri pör sem við erum að æfa með hjá HK. 

Nú hafið þið keppt erlendis, hvaða mótum hafið þið verið að keppa á?

Við kepptum á Heimsmeistaramótinu í Junior II standard dönsum sem fram fór í Ísrael í lok nóvember á síðasta ári sem var mikil lífs- og dansreynsla. Við höfum einnig keppt í Blackpool nokkrum sinnum.

Ef þið ættuð að ráðleggja ungum dansáhugamönnum, hverjar væru þær?

Vera dugleg að æfa, bæði hvert og eitt og sem par, og gefast aldrei upp.

Spurningar vegna HM

Nú eruð þið að fara á stórmót á vegum Dansíþróttasambands Íslands, hvernig eruð þið búin að vera æfa upp á síðkastið

Förum í 3 hóptíma á viku og 4-5 einkatíma, erum búin að vinna vel í latin síðustu vikur til að undirbúa okkur sem best

Hvað finnst ykkur mikilvægt að gera á keppnisdegi?

Snemma að sofa kvöldið áður og vakna snemma og passa að borða hollan mat.  Halda sér í jákvæðum og góðum fókus.

Hvenær byrjuðuð þið að dansa?

Ég (Katrín Rut) var rúmlega 3 ára þegar ég byjaði að æfa samkvæmisdans.

Alexander  byrjaði að dansa 4 ára og  þau hafa dansað saman í 7 ár

Hver eru ykkar fyrirmyndir í dansinum?

Katrín: Í ballroom eru það Gylfi og María og í latin eru það Aron og Rósa.

Alexander:Adam og Karen
Gylfi og María
Aron og Rósa
Björn og Birgitta

Nú eruð þið búin að keppa mikið erlendis, hvaða mót hafið verið að keppa á?

Höfum farið 3 ferðir til Blackpool um páska og einu sinni til Assen saman og svo núna til Bremen í Þýskalandi.

Ef þið ættuð að ráðleggja ungum dansáhugamönnum, hverjar væru þær?

Katrín: Muna að njóta og hafa gaman.  Mikilvægt að vera trúr sjálfum sér. Alexander: Að njóta þess að dansa og grípa öll tækifæri sem bjóðast sem reynslu. Dans er frábær íþrótt og hentar öllum vel

Við sendum þeim góða strauma og segjum áfram Ísland 🇮🇸