Lög Dansíþróttasambands Íslands

1. Heiti, aðsetur og merki

 1. Dansíþróttasamband Íslands, skammstafað DSÍ, er æðsti aðili um öll mál. samkvæmisdansíþróttarinnar innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
 2. Heimili og varnarþing sambandsins er í Reykjavík.
 3. Dansíþróttasamband Íslands er samband allra héraðssambanda og íþróttabandalaga innan ÍSÍ sem hafa innan sinna vébanda félög er iðka, æfa og keppa í samkvæmisdansíþróttinni.
 4. Merki DSÍ sýnir danspar í rauðum og bláum lit.
 5. Fáni DSÍ er hvítur með merki DSÍ í miðju og orðin „Dansíþróttasamband Íslands“ undir merkinu.

2. Hlutverk

Hlutverk sambandsins er:

 1. Að hafa yfirstjórn allra málefna er varða samkvæmisdansíþróttina á Íslandi.
 2. Að vinna að stofnun nýrra aðildarfélaga innan aðildarsambandanna.
 3. Að efla almenna þátttöku í samkvæmisdansi, sem keppnis- og almenningsíþrótt.
 4. Að setja nauðsynleg lög og reglur og sjá til þess að þeim sé fylgt.
 5. Löggilda dómara, ráðstafa meistaramótum og staðfesta árangur.
 6. Að koma fram sem fulltrúar Íslands gagnvart erlendum dansíþróttasamböndum.
 7. Að samræma íslenskar reglur um dansíþróttina við alþjóðlegar, þar sem það á við.
 8. Að starfa að útbreiðslumálum dansíþróttarinnar á Íslandi.
 9. Að tefla fram landsliðum á alþjóðleg dansíþróttamót.
 10. Að standa vörð um uppeldislegt gildi dansíþróttarinnar á Íslandi.

DSÍ starfar sjálfstætt og er hlutlaust er varðar stjórnmál og trúarbrögð. DSÍ skal gæta jafnréttis og jafnræðis. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum, reglugerðum og ákvörðunum DSÍ og nefnda á vegum DSÍ. Aðilar skulu njóta fullra réttinda án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

3. Aðild að samtökum

DSÍ er aðili að:

 1. Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ).
 2. Alþjóðadansíþróttasambandinu (WDSF).
 3. Norður-Evrópudansíþróttasambandið.

DSÍ skal í sínu starfi virða lög, reglur og ákvarðanir ÍSÍ og WDSF. DSÍ skal sjá um að lög og reglur varðandi dansíþróttina á Íslandi séu í samræmi við alþjóðareglur. Lög, reglur og ákvarðanir DSÍ eru bindandi fyrir aðila að DSÍ; félög, iðkendur, dómara, þjálfara, forystumenn og aðra þá sem eru innan vébanda aðildarfélaga DSÍ.

4. Aðild að DSÍ

Öll aðildarfélög innan ÍSÍ er æfa, iðka og keppa í samkvæmisdansíþróttinni eru aðilar að DSÍ.

5. Réttindi og skyldur aðildarfélaga

Öll aðildarfélög DSÍ hafa rétt til að taka þátt í mótum sem eru skipulögð á vegum DSÍ.

 1. Öll dansíþróttamót skulu fara fram í samræmi við lög, reglur og ákvarðanir DSÍ, ÍSÍ og WDSF og ber aðildarfélögum skylda til þess að virða þær reglur.
 2. Aðildarfélag sem tekur þátt í mótum á vegum DSÍ eða aðildarfélaga þess ber að sjá til þess að félagsmenn og aðstandendur þeirra, þjálfarar, dómarar og forustumenn innan vébanda félagsins virði lög, reglur og ákvarðanir DSÍ, ÍSÍ og WDSF.
 3. Aðildarfélag sem á aðild að mótum á vegum DSÍ skal senda því árlega greinargerð yfir starfið á liðnu starfsári.
 4. Héraðssambönd, íþróttabandalög og aðildarfélög ber að senda stjórn DSÍ skýrslu um öll dansíþróttamót sem þau halda.
 5. Árlega greinargerð yfir starfið á liðnu starfsári og upplýsingar um stjórnir skulu sendar stjórn DSÍ innan mánaðar frá aðalfundi aðildarfélaga.
 6. Aðildafélög DSÍ eiga að halda bókhald yfir starfsemi sína í samræmi við gildandi lög og reglur um bókhald og reglur ÍSÍ.
 7. Héraðssamböndin og íþróttabandalögin eru milliliðir milli aðildarfélaga sinna og stjórnar DSÍ.
 8. Aðildarfélög að DSÍ skuldbinda sig til að vinna að því að koma í veg fyrir lyfjamisnotkun.
 9. Aðildarfélög að DSÍ skuldbinda sig til þess að vera ekki aðilar að öðru samkvæmisdans-íþróttasambandi.
 10. Aðildarfélög DSÍ, iðkendur og aðrir innan DSÍ skuldbinda sig til að stunda dansíþróttina í samræmi við ákvæði þessara laga og allra reglna DSÍ.
 11. Aðildarfélög DSÍ, iðkendur og aðrir innan DSÍ skuldbinda sig til að fara í einu og öllu eftir siðareglum sem settar eru af DSÍ, ÍSÍ og WDSF.
 12. Aðildarfélag sem brýtur gegn ofangreindum skyldum skal hlíta viðurlögum þeim sem nánar eru ákvörðuð í lögum þessum, lögum ÍSÍ, lögum WDSF, ákvörðunum dómstóla ÍSÍ og WDSF og öðrum reglum DSÍ.
 13. Iðkendur aðildarfélaga DSÍ skulu vera skráðir í samræmi við reglugerð ÍSÍ.
 14. Ef ákvæði reglna DSÍ skarast við eða ganga lengra en reglur WDSF þá gilda reglur DSÍ.
 15. Ef ákvæði laga WDSF og ÍSÍ skarast, þá gilda reglur WDSF.

6. Stjórnkerfi DSÍ

Málefnum DSÍ stjórna:

 1. Dansþing sem fer með æðsta vald í málefnum DSÍ og setur sambandinu lög.
 2. Stjórn DSÍ sem fer með æðsta vald í málefnum sambandsins á milli þinga.
 3. Fastanefndir DSÍ sem vinna samkvæmt lögum og reglum DSÍ og starfsreglum sem stjórnDSÍ setur.
 4. Sérstakar nefndir sem skipaðar eru af dansþingi eða stjórn DSÍ og starfa að afmörkuðum málefnum.
 5. Framkvæmdastjóri DSÍ sem ber ábyrgð á daglegum rekstri sambandsins og skrifstofu DSÍ sem sér um daglega umsýslu verkefna.
 6. Hafi DSÍ ekki sérstaka dómstóla þá heyra dómsmál er upp kunna að koma innan sambandsins beint undir dómstóla ÍSÍ og WDSF.

7. Dansþing

Dansþing skal haldið eigi síðar en í maí ár hvert. Stjórn DSÍ ákveður þingstað og skal hún boða þingið með rafrænum hætti með eins mánaðar fyrirvara. Dansþing er lögmætt ef löglega er til þess boðað.

 1. Dansþing fer með æðsta vald í málefnum DSÍ.
 2. Fulltrúar á dansþingi skulu kjörnir af þeim aðilum sem mynda DSÍ.
 3. Stjórn hvers héraðssambands eða íþróttabandalags þar sem dans er stundaður á rétt á einum fulltrúa.
 4. Aðildarfélög DSÍ hafa rétt til að senda fulltrúa sína á dansþing og fer fjöldi þeirra eftir þátttöku félaga í mótum DSÍ í samkvæmisdönsum á yfirstandandi keppnistímabili með eftirfarandi hætti:
  1. Fyrir fyrstu 50 keppendur hvers félags koma 2 fulltrúar.
  2. Síðan 1 fyrir hverja 10 eða brot úr tíu eftir það.
  3. Keppnistímabilið, sem notað er við útreikning á fjölda fulltrúa, er september til maí ár hvert.
  4. Á hverju helgarmóti telst hver keppandi aðeins einu sinni.
 5. Á dansþingi hafa aðeins þingfulltrúar atkvæðisrétt, þó eingöngu fulltrúar aðildarfélaga og sambandsaðila sem eru skuldlausir við DSÍ. Kjörbréfin skulu staðfest á dansþingi af kjörbréfanefnd. Ekki er unnt að greiða atkvæði samkvæmt umboði eða bréfleiðis.
 6. Hver þingfulltrúi fer með eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf, sem gefin eru út af sambandsaðilum DSÍ á þar til gerðu eyðublaði sem DSÍ sér þeim fyrir. Útfylltum kjörbréfum skal skila inn til skrifstofu DSÍ viku fyrir þing.
 7. Auk kjörinna fulltrúa eiga eftirtaldir aðilar rétt til þingsetu með málfrelsi og tillögurétt:
  1. Stjórn DSÍ, varastjórn og skoðunarmenn.
  2. Forseti og framkvæmdastjórn ÍSÍ.
  3. Formenn héraðssambanda og íþróttabandalaga.
  4. Formenn allra nefnda DSÍ.
  5. Heiðursfélagar DSÍ.
  6. Fulltrúi frá íþróttanefnd ríkisins.
 8. Tillögur um lagabreytingar eða önnur málefni, sem sambandsaðilar óska eftir að tekið verði fyrir á þinginu, skulu tilkynntar stjórn DSÍ bréflega, eða með öðrum sannanlegum hætti minnst 3 vikum fyrir þingið.
 9. Eigi síðar en 2 vikum fyrir dansþing skal stjórn DSÍ senda aðildarfélögum með sannanlegum hætti ítrekun fundarboðs með dagskrá og upplýsingum um lagabreytingar, tillögur og önnur mál, sem leggja skal fyrir þingið.
 10. Eigi síðar en viku fyrir boðað dansþing skulu ársreikninga og fjárhagsáætlun DSÍ liggja frammi á skrifstofu DSÍ til skoðunar.

8. Framkvæmd dansþings

Dagskrá dansþings:

 1. Þingsetning og staðfesting á lögmæti þingsins í samræmi við lög þessi.
 2. Kosning þingforseta og þingritara.
 3. Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar.
 4. Skýrsla stjórnar.
 5. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram og skýrðir.
 6. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga sambandsins.
 7. Skýrsla stjórnar og reikningar sambandsins borin undir atkvæðagreiðslu.
 8. Fjárhagsáætlun næsta fjárhagsárs.
 9. Ávörp gesta.
 10. Tillögur mótanefndar um tímasetningar dansíþróttamóta DSÍ næsta keppnistímabil.
 11. Tillögur um breytingar á lögum teknar til afgreiðslu.
 12. Kosning stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna reikninga samkvæmt tillögum uppstillingarnefndar.
 13. Kosning fulltrúa á Íþróttaþing ÍSÍ.
 14. Önnur mál.
 15. Þingslit.

Stjórn DSÍ skal senda framkvæmdastjórn ÍSÍ, aðildarfélögum og sambandsaðilum DSÍ fundargerð Dansþings og gildandi lög og reglur DSÍ í síðasta lagi 1. ágúst ár hvert.

9. Atkvæðagreiðsla

 1. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum nema um lagabreytingar sé að ræða, þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.
 2. Þingið getur með 2/3 hlutum atkvæða leyft að taka fyrir mál sem komið hafa fram eftir að dagskrá þingsins var send aðildarfélögum.
 3. Óheimilt er að afgreiða tillögur um breytingar á lögum þessum sem eru lagðar fram eftir að dansþing er hafið, nema slíkt sé nauðsynlegt vegna annarra tillagna sem samþykktar hafa verið á þinginu eða fluttar sem breytingartillögur við aðrar tillögur sem liggja fyrir þinginu.
 4. Ákvarðanir sem eru teknar á dansþingi skulu taka strax gildi nema annað sé ákveðið á viðkomandi þingi.

10. Aukaþing

 1. Aukaþing skal halda ef stjórn DSÍ telur þörf á eða þegar helmingur sambandsaðila óskar þess.
 2. Aukaþing skal boða með sannanlegum hætti með a.m.k. 3 vikna fyrirvara.
 3. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglubundna þingi á undan og gilda sömu kjörbréf.
 4. Á aukaþingi má ekki gera lagabreytingar.
 5. Tillögur um málefni sem óskast tekin fyrir á aukaþingi skulu hafa borist stjórn DSÍ minnst 2 vikum fyrir aukaþing. Eigi síðar en viku fyrir aukaþingið skal senda sambandsaðilum dagskrá þingsins.
 6. Á aukaþingi skal ekki kjósa til stjórnar, nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti stjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum eða stjórnin að eigin dómi hefur orðið óstarfhæf.
 7. Að öðru leyti gilda sömu reglur og um reglulegt dansþing.

11. Skipulag stjórnar DSÍ

Stjórn DSÍ skipa:

 1. Formaður.
 2. Í aðalstjórn sitja ásamt formanni fjórir meðstjórnendur.
 3. Varamenn skulu vera tveir.

12. Kosning stjórnar DSÍ

 1. Stjórnin skal skipuð 5 fulltrúum, sem kosnir eru á dansþingi. Einnig skulu kosnir tveir fulltrúar til vara.
 2. Kjósa skal formann sérstaklega til eins árs en aðra stjórnarmenn skal kjósa til tveggja ára. Sá háttur skal hafður á að ávallt sé kosið um tvo stjórnarmenn árlega. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.
 3. Varamenn eru kosnir til eins árs í senn og taka þeir sæti í stjórn í þeirri röð, sem atkvæðamagn segir til um. Ef varamenn eru sjálfkjörnir taka þeir sæti í stjórn í þeirri röð sem þeir voru tilnefndir.
 4. Hverju aðildarsambandi er aðeins heimilt að tilnefna þrjá aðila til stjórnarkjörs hverju sinni.
 5. Tilkynning um framboð til embættis formanns DSÍ skal berast skrifstofu DSÍ minnst 21 degi fyrir dansþing. Framkvæmdastjóri kemur tilkynningum um framboð strax til formanns uppstillingarnefndar.
 6. Til þess að ná kjöri sem formaður DSÍ þarf meirihluta greiddra atkvæða. Náist ekki meirihluti við fyrstu kosningu skal kjósa á ný, bundinni kosningu, um þá tvo menn sem flest atkvæði hlutu. Ræður þá einfaldur meirihluti atkvæða.
 7. Allar kosningar til formanns og stjórnar skulu vera skriflegar. Kosning skal vera bundin við þá sem gefa kost á sér og er atkvæði aðeins gilt ef kosnir eru jafnmargir og kjósa á. Við kosningu á milli annarra en formanns á dansþingi gildir sú regla að þeir sem flest atkvæði fá eru rétt kjörnir. Fái fleiri en þeir sem kjósa á jafnmörg atkvæði skal kjósa um þá á ný, bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti.

13. Verkaskipting stjórnar DSÍ

 1. Formaður skal boða til stjórnarfunda og stjórnar þeim.
 2. Óski þrír eða fleiri stjórnarmenn eftir stjórnarfundi skal til hans boðað eigi síðar en sjö dögum eftir að ósk þar að lútandi hefur verið borin fram.
 3. Stjórnarfundur er löglegur ef fjórir stjórnarmenn eru mættir.
 4. Formaður, varaformaður og gjaldkeri ásamt framkvæmdastjóra og formanni mótanefndar mynda framkvæmdastjórn. Framkvæmdastjórn fer með ákvörðunarvald stjórnar á milli stjórnarfunda. Allar ákvarðanir sem framkvæmdastjórn tekur skulu afgreiddar á næsta stjórnarfundi.

14. Starfssvið stjórnar

 1. Að framkvæma ákvarðanir og ályktanir dansþings.
 2. Að sjá til þess að lögum og reglum DSÍ sé framfylgt.
 3. Að sjá um að samin séu lög, móta- og keppendareglur og aðrar reglugerðir fyrir samkvæmisdansíþróttina.
 4. Að setja nauðsynlegar reglur um þau málefni sem snúa að allri framkvæmd laga þessara. Nær það til allra breytinga á gildandi reglum sem og setningu nýrra.
 5. Að annast útgáfu á lögum og reglugerðum fyrir dansíþróttina sem eru í samræmi við alþjóðareglur.
 6. Að annast rekstur sambandsins og að bera ábyrgð á fjármálum þess.
 7. Að ráða framkvæmdastjóra til starfa í samræmi við starfslýsingu.
 8. Að senda framkvæmdastjórn ÍSÍ lögboðnar skýrslur og tilkynningar.
 9. Að skipa nefndir sbr. grein 16, setja þeim reglugerðir og hafa eftirlit með störfum þeirra.
 10. Að vinna að eflingu samkvæmisdansíþróttarinnar á Íslandi.
 11. Að koma fram erlendis fyrir hönd samkvæmisdansíþróttarinnar.
 12. Að ráða landsliðsþjálfara.
 13. Að tefla fram landsliði og keppendum á alþjóðamótum.
 14. Að taka ákvarðanir um keppnisrétt á Heims- og Evrópumeistaramótum sem haldin eru á vegum WDSF.
 15. Að taka ákvarðanir um veitingu heiðursmerkja og viðurkenninga.
 16. Að gera tillögur til dansþings um kosningu heiðursfélaga DSÍ.
 17. Nýjar reglur og breytingar á gildandi reglum skulu kynntar aðildarfélögum og aðildarsamböndum með rafrænu dreifibréfi og taka þær gildi samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar DSÍ. Ekki þarf að birta þær með sérstökum hætti svo þær öðlist gildi heldur er nægjanlegt að þær séu kynntar með rafrænu dreifibréfi.
 18. Óski aðildarfélög eða aðildarsambönd eftir setningu nýrra reglna eða breytinga á gildandi reglum skal slíkum óskum beint til stjórnar DSÍ.
 19. Stjórn DSÍ og allir þeir sem koma fram á vegum DSÍ skulu fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda á hverjum tíma.

15. Lyfjaeftirlit

Lyfjaeftirlit ÍSÍ er æðsti aðili lyfjamála hjá DSÍ, aðildarsambanda og aðildarfélaga þess. Allar breytingar á lögum og reglugerðum lyfjaeftirlitsins taka sjálfkrafa gildi gagnvart DSÍ.

16. Stjórnskipaðar nefndir

Stjórn DSÍ getur skipað í eftirfarandi nefndir:

 1. Aganefnd.
 2. Fjáröflunarnefnd.
 3. Mótanefnd.
 4. Landsliðsnefnd.
 5. Útbreiðslunefnd.
 6. Uppstillingarnefnd.
 7. Laganefnd.

17. Framkvæmdastjóri og skrifstofa

 1. Framkvæmdastjóri DSÍ er ráðinn af stjórn DSÍ samkvæmt ráðningarsamningi.
 2. Framkvæmdastjóri DSÍ stjórnar og ber ábyrgð á rekstri skrifstofu og starfsmannahaldi DSÍ.
 3. Framkvæmdastjóri DSÍ getur vísað brotum á lögum og reglum DSÍ til aganefndar.
 4. Starfsmenn á skrifstofu DSÍ annast daglega umsýslu verkefna undir stjórn og á ábyrgð framkvæmdastjóra.

18. Kærumál

Um kærumál skal farið eftir dóms- og refsiákvæðum dómstóla ÍSÍ.

19. Reikningar

 1. Reikningsár DSÍ er almanaksárið.
 2. Ársreikningar DSÍ skulu undirritaðir af stjórn, framkvæmdastjóra og skoðunarmönnum ársreikninga.
 3. Að loknu Dansþingi skulu ársreikningar og fjárhagsáætlun vera birt á heimasíðu DSÍ.

20. Ýmis ákvæði

 1. Stjórn DSÍ skal hafa frjálsan aðgang að öllum dansíþróttamótum, sem fara fram innan vébanda sambandsins.
 2. Aðildarfélög skulu tilkynna DSÍ um aðalfundi félaganna, með viku fyrirvara.
 3. DSÍ og aðildarfélög innan DSÍ eru eigendur alls réttar sem tengist mótahaldi DSÍ og/eða öðrum viðburðum sem eru skipulagðir af DSÍ eða aðildarfélögum. Þessi réttur nær m.a. til hvers kyns fjárhagslegra réttinda, upptöku- og útsendingaréttinda af öllu tagi, t.d. í sjónvarpi, útvarpi, á Internetinu og í síma, markaðsréttinda, kynninga og höfundarréttinda. Stjórn DSÍ skal setja nauðsynlegar reglur um nýtingu þessara réttinda.
 4. Við brot á ákvæðum laga þessara hefur stjórn DSÍ heimild til að beita viðkomandi viðurlögum sem getið er um í lögum þessum og í reglum sambandsins verði þeim ekki skotið til aganefndar DSÍ, dómstóls ÍSÍ eða dómstóls WDSF.
 5. Tillögu um að leggja DSÍ niður má aðeins taka fyrir á lögmætu Dansþingi. Til þess að samþykkja þá tillögu þarf minnst 3/4 hluta atkvæða viðstaddraatkvæðisbærra fulltrúa. Hafi slík tillaga verið samþykkt skal gera öllum sambandsaðilum grein fyrir henni í þinggerðinni og tillagan síðan látin ganga til næsta reglulegs þings. Verði tillagan þá samþykkt aftur er það fullgild ákvörðun um að leggja DSÍ niður.
 6. Sé DSÍ lagt löglega niður, skal afhenda ÍSÍ eignir DSÍ til varðveislu.
 7. Lög þessi öðlast gildi strax eftir samþykki þeirra á Dansþingi 15. maí 2013 og að lokinni staðfestingu framkvæmdastjórnar ÍSÍ og falla þá eldri lög úr gildi.