Reglur fyrir útbreiðslunefnd

Starfsreglur fyrir útbreiðslunefnd DSÍ

1.gr. Útbreiðslunefnd DSÍ starfar samkvæmt lögum DSÍ og leysir úr málum eftir ákvæðum þeirra laga. Útbreiðslunefnd skal skipuð a.m.k. 3 persónum, sem stjórn DSÍ tilnefnir. Formaður nefndarinnar skal sitja í stjórn DSÍ en að öðru leyti skiptir nefndin með sér verkum.

2.gr. Nefndin skal koma saman þegar þurfa þykir en að jafnaði eigi sjaldnar en þriðja hvern mánuð. Formaður boðar til funda og stýrir þeim. Starfsmaður nefndarinnar annast útsendingu fundarboðs með dagskrá og heldur fundargerð sem hann sendir afrit af til nefndarmanna og framkvæmdastjóra DSÍ. Erindi til nefndarinnar skal vera skriflegt og það sent til starfsmanns hennar á skrifstofu DSÍ sem tekur það til afgreiðslu

3.gr. Útbreiðslunefnd vinnur að eflingu dansíþróttarinnar og útbreiðslu með það að markmiði að sem flestir fái tækifæri á að taka þátt í leik og starfi innan vébanda Dansíþróttasambands Ísland.

4.gr. Helstu verkefni útbreiðslunefndar eru eftirfarandi:

  • Að móta stefnu um útbreiðslu dansíþróttarinnar.
  • Að auka áhuga á samkvæmisdansi og fjölga iðkendum um land allt.
  • Að vinna að gerð fræðsluefnis fyrir almenning, iðkendur og aðstandendur iðkenda
  • Að aðstoða félög við að efla samkvæmisdans í sínum sveitarfélögum.

5.gr. Útbreiðslunefnd skal annast önnur þau störf, sem stjórn DSÍ kann að fela henni á hverjum tíma.

6.gr. Stjórn DSÍ sker úr öllum ágreiningsatriðum, sem kunna að rísa út frá reglum þessum.

7.gr. Starfsreglur þessar taka þegar gildi.