Sara Rós og Nicolo á Heimsmeistaramót Áhugamanna í latín dönsum í Moskvu

Nú um helgina keppa Sara Rós og Nicolo fyrir íslands hönd á heimsmeistaramóti Áhugamanna í latín dönsum í Moskvu Rússlandi. Óskar DSÍ þeim góðs gengis á mótinu.

DSÍ tók púslinn á þeim fyrir mótið og lagði fram spurningarlista

Nú eruð þið að fara á stórmót á vegum Dansíþróttasambands Íslands, hvernig eruð þið búin að vera æfa upp á síðkastið

Aðstæðurnar okkar hafa ekki verið með venjulegu móti þar sem að Nico hefur verið að jafna sig af álagsmeiðslum í allt sumar og var alveg frá æfingum í 2 mánuði. Við mætum því á þetta Heimsmeistaramót með allt annan undirbúning en vanalega. Ég hélt áfram að æfa ein í sumar og einbeitti mér að bæta mig sjálfa, en það hjálpaði mikið þegar við byrjuðum að æfa saman aftur. Þar sem að Nico þurfti að fara rólega af stað og við gátum ekki verið á jafn löngum æfingum og áður, einbeittum við okkur að því að ná sem mestu út úr stuttum tíma, eða það sem að kallast “quality ovar quantity”. Einnig stunduðum við bæði okkar styrktaræfingar og teygjur og byggðum okkur upp rólega. Þrátt fyrir að hafa stundað minni þol og keyrsluæfingar þá náðum við ágætis framförum á stuttum tíma og erum vel undirbúin fyrir mótið.

Hvað finnst ykkur mikilvægt að gera á keppnisdegi?

Fyrst og fremst þá reynum við að skipuleggja daginn eins vel og við getum kvöldið áður, en það hjálpar okkur mikið til að forðast óþarfa stress. Við gerum áætlun frá því að við vöknum, hvað við erum lengi að gera okkur til, borða morgunmat, leggja af stað á keppnisstað o.s.frv. Einnig á keppnisstað, hvað það fer mikill tími í að koma okkur fyrir, skoða staðinn, hita upp, skipta um föt og jafnvel hvenær við höfum tíma til að borða, og ef að við þurfum að gera hluti í sitt hvoru lagi. Á keppnisdaginn sjálfan förum við svo eftir planinu eins vel og við getum. Við hitum alltaf upp á sama hátt sem að hentar okkur mjög vel, fyrst tökum við sirka 30 mín í sitthvoru lagi þar sem að við hitum upp líkamann með að teygja og rúlla, skokka um og ná púlsinum upp og hita í líkamann. Við byrjum svo á að dansa í sitt hvoru lagi líka og hitum upp á okkar eigin hátt í dansskóm áður en að við förum að dansa saman. Við dönsum í gegnum part úr hverjum dans og tökum alltaf einn dans á fullum krafti til að komast í gegnum “sjokkið” sem er oft eftir fyrsta dansinn. Einnig leggjum við alltaf áherslu á að vera alveg tilbúin með alla litla hluti tengt “lúkkinu” svo að ekkert sé á síðustu stundu, og auðvitað að passa upp á vökva og næringu á keppnisdag. Við kaupum alltaf nóg af drykkjum og snarli til að taka með okkur á keppnina kvöldið áður.

Hvenær byrjuðuð þið að dansa?

Sara byrjaði að dansa 7 ára og Nicolo byrjaði 8 ára.

Hver eru ykkar fyrirmyndir í dansinum?

Okkar aðal fyrirmyndir eru danskennararnir okkar; Emanuel Valeri & Tania Kehlet í Standard og Martino Zanibellato & Michelle Abildtrup í Latin. Við munum bæði vel eftir þeim á keppnisgólfinu sjálfum fyrir nokkrum árum og voru þau frábærir dansarar, og eru algjörar fyrirmyndir í daglegu lífi sem dansarar, kennarar og bara sem manneskjur. Við sækjum einnig innblástur úr alls kyns áttum, en það eru mikið af frábærum dönsurum á keppnisgólfinu í dag.

Nú eruð þið búin að keppa mikið erlendis, hvaða mót hafið verið að keppa á?

Eins og ég minntist á hér fyrst þá hefur Nico verið að glíma við álagsmeiðsli en þau hafa verið allt árið 2019, svo að við höfum farið á mun færri keppnir en að við erum vön undir venjulegum kringumstæðum. Við sóttum eitt opið mót í Tokyo í mars og kepptum svo á EM í Standard í Lettlandi í maí, EM í Latin í Frakklandi í maí og EM í 10 dönsum í Slóvakíu í júní. Undanfarin ár höfum við keppt á 20-25 keppnum á ári svo þetta ár verður aðeins minna um keppnir. Við stefnum þó á að komast á fullt aftur núna í seinni hluta árs.

Ef þið ættuð að ráðleggja ungum dansáhugamönnum, hverjar væru þær?

Hafið alltaf trú á ykkur sjálfum og aldrei hætta að eltast við draumana ykkar og vinna að markmiðum. Dansheimurinn getur verið villandi og virðist sem að margt ómerkilegt skipti máli, en á endanum eru það þeir sem að vinna harðast og hafa alltaf trú sem að ná alla leið.