Viðbragðsáætlun Íþrótta- og æskulýðsstarfs

Dansíþróttasamband Íslands vill kynna fyrir öllum sínum aðildarfélögum, starfsfólki, sjálfboðaliðum og iðkendum nýja Viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Áætlunin var unnin í sameiningu af Bandalagi íslenskra skáta (BÍS), Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR), Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ), Kristilegu félagi ungra manna og kvenna (KFUM og K), Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) og Æskulýðsvettvanginum(ÆV).

Markmið viðbragðsáætlunar er að færa aðilum innan íþrótta- og æskulýðsfélaga og samtaka um allt land samræmda áætlun vegna atvika og áfalla sem upp geta komið í slíku starfi og innifelur leiðbeiningar varðandi erfið og flókin mál af ýmsum toga. Best er að viðbrögð allra íþrótta- og æskulýðsfélaga séu eins.

Í áætluninni er að finna verkferla sem fylgja skal þegar upp koma atvik eða áföll í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Dæmi um atvik sem að viðbragðsáætlunin nær til eru slys, veikindi, náttúruhamfarir, einelti og ofbeldi. Einnig eru þar gagnlegar upplýsingar um meðal annars ferðalög, hinseginleika og fjölmenningu og inngildingu í félagsstarfi, öryggismál og skráningu atvika.
Áætlunin nær yfir alla starfsemi íþrótta- og æskulýðsfélaga á landinu, aðildarfélaga, þátttakendur, stjórnendur, yfirmenn, starfsfólk, sjálfboðaliða og aðra ábyrgðaraðila innan félaganna. Þó að starfsemin geti verið misjöfn á milli félaga þá er mikilvægt að öllum líði vel við leik og störf í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Allt fólk á að geta gengið að því vísu að félagsstarf þess bjóði upp á öruggt umhverfi og að fólk fái að vera óáreitt í félagsstarfinu, óháð aldri, kynferði eða stöðu að öðru leyti. Sömuleiðis á allt fólk að geta leitað réttar síns ef atvik koma upp, án þess að óttast afleiðingar. Ýmis atvik geta komið upp og mikilvægt er að geta brugðist við á sem bestan máta.
Erfitt er að gera öllum mögulegum atvikum skil en mikilvægt er að hafa einhverjar grunnreglur til að fylgja.

Viðbragðsáætlunina má finna á heimasíðu samskiptaráðgjafa undir verkfærakistu þar sem finna má fleiri leiðbeinandi gögn og eyðublöð er varða málaflokkinn.

https://www.samskiptaradgjafi.is/verkfaerakista

DSÍ fordæmi allt ofbeldi og einelti sem verður ekki liðið innan samtakana. Öll sem telja sig hafa upplifað eitthvað slíkt eru beðin um að setja sig í samband annað hvort við einhvern innan DSÍ eða samskiptaráðgjafa.

Hægt er að setja sig í samband við samskiptaráðgjafa með því að hringja, senda töldupóst eða tilkynna beint hér
https://www.samskiptaradgjafi.is/tilkynningaform allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu ráðgjafans www.samskiptaradgjafi.is