Nú um helgina fer fram heimsmeistaramót WDSF í standard dönsum í Brno Tékklandi. Ásamt því eru opin mót í öllum flokkum.
Ísland sendir 2 dansíþróttapör á mótið og verður gaman að fylgjast með gengi þeirra. Hægt verður að horfa á mótið hér:
Hér má sjá ýmsar upplýsingar um dansíþróttapörin sem keppa.
Rebekka Rós Ragnarsdóttir og Stefano Gentile
Nú eruð þið að fara á stórmót á vegum Dansíþróttasambands Íslands, hvernig eruð þið búin að vera æfa upp á síðkastið?
Upp á síðkastið höfum við æft 3-4 klukkutíma á dag. Blöndum saman tækniæfingum og þrekæfingum.
Hvað finnst ykkur mikilvægt að gera á keppnisdegi?
Okkur finnst mikilvægt að hvílast vel nóttina fyrir keppnisdag og vakna tímanlega í undirbúning eins og förðun og hárgreiðslu. Við hugsum vel um næringu á keppnisdegi og andlegu hliðina.
Hvenær byrjuðuð þið að dansa?
Við byrjuðum að dansa á barnsaldri og höfum dansað saman í um 2 ár.
Hver eru ykkar fyrirmyndir í dansinum?
Við eigum margar fyrirmyndir sem eru þá helst kennararnir okkar.
Nú eruð þið búin að keppa mikið erlendis, hvaða mót hafið verið að keppa á? Á þessu ári kepptum við á Íslandsmeistaramótinu í Standard dönsum sem haldið var í lok maí og lentum þar í öðru sæti. Einnig kepptum við í Blackpool í lok ágúst.
Ef þið ættuð að ráðleggja ungum dansáhugamönnum, hverjar væru þær? Einfalt, elta drauminn um að verða dansari og leggja á sig mikla vinnu.
Laufey Þóra Th. Guðbjörnsdóttir og Kolbeinn Sturla Baldursson
Nú eruð þið að fara á stórmót á vegum Dansíþróttasambands Íslands, hvernig eruð þið búin að vera æfa upp á síðkastið? Við erum búin að bæta við aukalega þrek- og tæknitíma ofan á venjulegar æfingar sem eru 6 daga vikunnar. Fyrirvarinn fyrir þetta mót var mjög stuttur og við þurftum að bregðast hratt við breyttu æfingaplani.
Hvað finnst ykkur mikilvægt að gera á keppnisdegi? Hita vel og tímanlega upp, sofa vel nóttina fyrir mót og borða nóg.
Hvenær byrjuðuð þið að dansa? Kolbeinn: Þegar ég var 11 ára, Laufey Þóra: Þegar ég var 5 ára
Hver eru ykkar fyrirmyndir í dansinum? Þjálfararnir okkar.
Ef þið ættuð að ráðleggja ungum dansáhugamönnum, hverjar væru þær? Byrja snemma að æfa með ákveðin markmið í huga þannig æfingarnar skili sem mestu og æfa sjálf aukalega fyrir/eftir einkatíma.