Landsliðspörin okkar eru búin að standa sig alveg frábærlega á HM og EM í þessum mánuði.

Eins og fram hefur komið áður þá náðu Nikita Bazev og Hanna Rún Bazev Óladóttir frábærum árangri á evrópumeistaramóti atvinnumanna í latin dönsum í Róm í byrjun mánaðarins sem kom þeim í fyrsta sætið á heimslista WDSF.
Þau tóku síðan einnig þátt á heimsmeistaramóti í flokki atvinnumanna í latin dönsum í Þýskalandi 18. október og lentu þar í 5. sæti. Frábær árangur hjá þessu glæsilega danspari og óskum við þeim innilega til hamingju.

Tvö pör fóru síðan á heimsmeistaramót unglinga í standard dönsum í Moldóvu þann 12. október.
Það voru Gísli Svanur Reynisson og Auður Laufey Reynisdóttir ásamt Magnúsi Torfa Jóhanssyni og Þórdísi Birnu Kristmannsdóttur og stóðu þau sig með stakri prýði.

Grímur Arnarson og Katrín Klara Ásgeirsdóttir fóru fyrir hönd Íslands til Tékklands að keppa á heimsmeistaramóti fullorðinna í latin dönsum og óskum við þeim til hamingju með árangurinn.

Á morgun, föstudaginn 24. október eru síðan Ólafur Leó Waage og Katarína Björg Helgadóttir fulltrúar Íslands á heimsmeistaramóti ungmenna í standard dönsum og óskum við þeim góðs gengis.