Heiðar Ástvaldsson

Heiðar Róbert Ástvaldsson danskennari, lést aðfararnótt
sunnudagsins 4.október sl. á 84.afmælisdegi sínum.  Heiðar var
einn af frumkvöðlum í samkvæmisdansakennslu á Íslandi og einn
af máttarstólpunum í greininni um áratuga skeið.

Heiðar fæddist á Siglufirði 4.oktober 1936.  Hann stofnaði Dansskóla Heiðars Ástvaldssonar árið 1956 og lauk
danskennaraprófi frá Imperial Society of Teachers of Dancing
árið 1957.  Heiðar var gríðarlega áhugasamur um dansinn og
uppbyggingu og þróun hans á Íslandi og var duglegur að sækja
sér viðbótarmenntun og þekkingu í dansi og sótti námskeið á
hverju ári allt til ársins 2014.  Leitaði hann víða fanga, þó
einkum í Englandi, Þýskalandi og Danmörku.

Heiðar kenndi dans á RÚV um fimm ára skeið og sá um
danslagaþátt stöðvarinnar i sautján ár.  Síðar tók hann upp
þann þráð að nýju og gerði þætti m.a. um kúbanska tónlist
á Útvarpi Sögu.  Heiðar sýndi dans víða og ma. í
sjónvarpsþáttum sem hann gerði ásamt nemendum sínum og
systrunum Guðrúnu og Eddu.

Heiðar kom að stofnun Danskennarasambands Íslands og var
formaður þess.  Við stofnun Dansráðs Íslands varð hann
fulltrúi þess hjá WDC, alþjóðasamtökum danskennara.  Síðar
varð hann forseti DÍ.  Hann kom að mörgum framfaramálum
varðandi dansinn í störfum sínum fyrir félögin og var einn að
brautryðjendum í danskennslu í grunnskólum og baráttumaður
fyrir réttindum danskennara á því sviði.


Heiðar skrifaði þrjár bækum um dans: Kennslubók í Cha Cha
Cha, Alþjóðadanskerfið og 25 línudansar.

Heiðar var kvæntur Hönnu Frímannsdóttur, formanni Karons,
samtaka sýningarfólks, en hún lést 2.apríl 2008.

Stjórn Dansíþróttasambands Íslands þakkar Heiðari Róbert
Ástvaldssyni fyrir hans þátt í uppbyggingu á dansíþróttinni
á Íslandi, samstarfið, dugnaðinn og eljuna.  Hann var
ósérhlífinn baráttumaður og vildi auka veg og virðingu
iþróttarinnar og kynna hana fyrir eins mörgum og mögulegt var.
Aðstandendum og fjölskyldu vottum við okkar dýpstu samúð.

Mynd: Heiðar Ástvaldsson og kona hans Hanna Frímannsdóttir mbl/Golli