Stjórn Dansíþróttasambands Íslands hefur ákveðið að vel athuguðu máli
að aflýsa Íslandsmeistaramótum sem voru frestuð frá mars sl. út árið
2020.
Dansíþróttasamband Íslands hefur nú þegar náð að halda 1
íslandsmeistaramót og 1 bikarmót það sem af er árinu 2020 ásamt
Reykjavíkurleikum.

Óvissa hefur ríkt í landinu eftir að COVID-19 veirufaraldurinn hófst
og erfitt hefur reynst að manna dómara á  komandi mót. Ákvörðun er
tekin m.t.t. núgildandi sóttvarnareglna þar sem að allir erlendir
ferðamenn þurfa að fara í sóttkví. Ómögulegt er að fá erlenda
alþjóðlega dómarar og íslenskir keppendur eiga erfitt með að komast
erlendis frá.Samkvæmt
B-5.1 í móta og keppendareglum segir að  ,,Dómarar á Íslands- og
bikarmeistaramótum með frjálsri aðferð skulu eigi vera færri en fimm
og hafa gild alþjóðleg dómararéttindi í samkvæmisdönsum.” Þessi atriði
leiða til þess að ekki er fyrirsjáanlega hægt að halda
Íslandsmeistaramót í núverandi mynd.

Stjórn DSÍ harmar að þurfa að taka þessa ákvörðun sem er tekin í
samráði við aðildarfélögin. Í ljósi aðstæðna er það mat stjórnar að
þessi ákvörðun sé sú eina rétta í stöðunni. Áfram standa vonir til
þess að hægt verði að halda mót árið 2021 með óbreyttu sniði.

Tilmæli til aðildarfélaga DSÍ

Þessi ákvörðun getur haft áhrif á keppendur sem hlakkað hafa til að
taka þátt í mótum og því er mikilvægt að leita leiða til að fylla í
skörðin.
Nokkur félög hafa rætt möguleika á að hafa innanlandsmót. Allt sem
skapar ný markmið og vettvang til skemmtilegrar samveru vinnur gegn
neikvæðum áhrifum veirufaraldursins. Fulltrúar stjórnar DSÍ lýsa yfir
vilja til að aðstoða félög við að setja upp félagsmót eða annað sem
tengist framkvæmd móta. Fara þarf eftir sóttvörnum sem sett hafa verið
hverju sinni.

DSÍ þarf að sækja um leyfi til ÍSÍ / sóttvarnaryfirvalda vegna
keppnisreglna í samkvæmisdansi.

Formenn aðildarfélaga eru beðnir um að koma þessum skilaboðum áfram á
sína félagsmenn.

Með vinsemd og virðingu,
Stjórn og starfsfólk DSÍ , 16. september 2020