Reglur um val í landslið DSÍ

1. grein 

Nýtt landslið er valin af DSÍ ár hvert og gildir valið frá fyrsta íslandsmóti ársins og fram að fyrsta íslandsmóti ársins á eftir. 

2. grein 

Þau pör sem eru í 1. til 4. sæti í keppnisflokkunum unglingar II, ungmenni og fullorðnum (meistaraflokkar) verða valin í landsliðið. Þetta á við um Íslands- og Bikarmeistaramót í latin og ballroom dönsum ásamt Íslandsmeistaramótinu í 10 dönsum en þá er valið 1. til 2. sætið. 

3. grein 

Par í flokki ungmenna getur ekki tekið sæti í landsliðinu í flokki fullorðinna. Par sem fyrir neðan er fær þá landsliðsréttinn. 

4. grein 

Pörin sem lenda í 1. og 2. sæti í meistaraflokki í latin og ballroom dönsum á Íslandsmeistaramóti DSÍ fá þátttökurétt á Heims- og Evrópumeistaramót. Pör sem lenda í 3.og 4. sæti verða varasæti ef 1. eða 2. sætið fara ekki. 

Par sem lendir í 1. sæti í meistaraflokki á Íslandsmeistaramóti DSÍ í 10. dönsum fær þátttökurétt á Heims- og Evrópumeistaramóti og Heims- og Evrópubikarmóti. Parið sem lendir í 2. sæti verður varasæti ef 1. sætið fer ekki. 

5. grein 

Par sem lendir í 1. sæti í meistaraflokki á Bikarmeistaramóti DSÍ fær þátttökurétt á Heims- og Evrópubikarmóti. Parið sem lendir í 2. sæti verður varasæti ef 1. sætið fer ekki. 

6. grein 

Séu einhver þessara móta þ.e. Heims- og Evrópumeistaramót, Heims- og Evrópubikarmót haldin fyrr á árinu en réttur til að fara samkvæmt 4. og 5. grein er Stjórn DSÍ heimilt að ákveða að samhliða ákveðnum keppnum verði um úrtökumót að ræða eða halda sér úrtökumót sem gildi varðandi rétt til að fara á keppnir sem taldar eru upp hér í þessari grein og skal það tilkynnt sérstaklega í auglýsingu fyrir mótin og til aðildafélaga. 

7. grein 

Ef ekkert þeirra para sem rétt hafa skv 3. til 5. grein ákveða að nýta rétt sinn til að fara á Heims- og Evrópumeistaramót skal stjórn DSÍ fara í sætin fyrir neðan varasætin. Ákveði par í einhverru því sæti að nýta réttinn skal það sjálfvirkt verða valið í landslið DSÍ og tekur það val gildi um leið og svar frá parinu berst. 

8.grein 

Stjórnir aðildarfélaga geta komið með tillögur til stjórnar DSÍ til að bæta pörum inní landsliðið. Við ákvörðun um hvort bæta skuli við pari í landsliðið skal einungis taka til greina par/einstakling sem hefur verið í þremur efstu sætum fyrri móta hérlendis. Að auki skal tekið mið af fyrri árangri á keppnum erlendis, hvort annar aðilinn eða báðir hafi áður verið í landsliðinu og markmiðum parsins og áætlunum um æfingar og/eða þátttöku í keppnum innanlands og erlendis. Áður en ákvörðun er tekin skal leita umsagnar landsliðsþjálfara. 

9. grein 

Danspörin sem ávinna sér keppnisrétt munu fá bréf frá DSÍ þar sem tilgreindur verður sá frestur sem parið hefur til að tilkynna hvort þau ætli að nýta sér keppnisréttinn 

DSÍ greiðir fasta upphæð sem ákveðin er hverju sinni þeim sem unnið hafa þátttökurétt á Heimsmeistara og Evrópumeistararmót. 

10. grein 

Til þess að danspar öðlist rétt til þátttöku í landsliði DSÍ verður annar aðilinn að ná minnst 14 ára aldri á almanaksárinu. 

Samþykkt á stjórnarfundi 29.apríl 2019